Siðareglurnar þjóna þeim tilgangi að gera iðkendum, þjálfurum, foreldrum og öðrum sem að starfi félagsins koma, grein fyrir því hvaða hegðunarviðmið eru höfð að leiðarljósi í starfinu og til hvers er ætlast af þeim einstaklingum sem koma fram í nafni Umf. Hvatar. Markmið siðareglna er að stuðla að bættri framkomu og styðja metnaðarfulla og heiðarlega framgöngu allra, en einnig til að efla traust og fagmennsku út á við sem og inná við. Gengið er út frá því að allir iðkendur, þjálfarar, foreldrar og starfsfólk kynni sér siðareglurnar og fari eftir þeim. Brot á sérmerktum siðareglum eru álitin agabrot innan félagsins og viðurlög við þeim í samræmi við viðbragðsáætlun Umf. Hvatar.
Iðkendur - börn og ungmenni:
- Gerðu alltaf þitt besta og berðu ábyrgð á eigin frammistöðu.
- Viðhaltu jákvæðni í hugsun og orði, bæði þegar vel gengur og illa.
- Virtu alltaf reglur og venjur varðandi heiðarleika í íþróttum.
- Sýndu öllum iðkendum virðingu, jafnt samherjum sem mótherjum.
- Þrættu hvorki né deildu við dómarann.
- Vertu heiðarlegur, sanngjarn og opinn gagnvart þjálfara og forystufólki félagsins sem ber ábyrgð á þér við æfingar og keppni.
- Forðastu neikvætt tal eða niðurlægjandi köll um samherja, mótherja og þjálfara.
- Komdu fram við aðra eins og þú vilt að komið sé fram við þig.
- Vertu ávallt stundvís á æfingar og keppnir, leggðu þig alltaf fram.
- Berðu virðingu fyrir hæfileikum og getu annarra óháð því hvað fólk er ólíkt hvað varðar s.s. kyn, kynþátt, trúarbrögð og kynhneigð.
Iðkendur - 18 ára og eldri:
- *Hafðu heilbrigði að leiðarljósi og neyttu aldrei ólöglegra lyfja né vímuefna.
- Virtu alltaf ákvarðanir dómara og annarra starfsmanna leiksins.
- Forðastu neikvæð ummæli eða skammir.
- Vertu heiðarleg/ur og opin/n í samvinnu við þjálfara og aðra sem styðja þig.
- Taktu sjálfur höfuðábyrgð á framförum þínum og þroska
- Vertu ávallt til fyrirmyndar varðandi framkomu, jafnt utan vallar sem innan og hafðu hugfast að þú ert fyrirmynd yngri iðkenda.
- * Samþykktu aldrei eða sýndu ógnandi eða ofbeldisfulla hegðun eða áreiti þar með talið kynbundið og kynferðislegt og beittu þér gegn því.
- Forðastu náin persónuleg samskipti við þjálfara þinn.
*Brot á sérmerktum siðareglum eru álitin agabrot innan félagsins og viðurlög við þeim í samræmi við viðbragðsáætlun Umf. Hvatar.
Þú sem þjálfari:
- Meðhöndlaðu alla iðkendur á einstaklingsgrunni og á þeirra eigin forsendum. Komdu vel fram við þá alla, óháð kyni, kynþætti, skoðunum, trúarbrögðum og kynhneigð sem þýðir m.a. að vera réttlátur, umhyggjusamur og heiðarlegur gagnvart iðkendum þínum.
- Styrktu jákvæða hegðun og framkomu. Viðhafðu einnig jákvæða gagnrýni og forðastu neikvæða gagnrýni.
- Sjáðu til þess að þjálfun og keppni sé við hæfi iðkenda með tilliti til aldurs, reynslu og hæfileika.
- Sýndu íþróttinni virðingu og virtu reglur hennar, venjur og siði. Stuðlaðu að því að iðkendur geri slíkt hið sama og kenndu þeim að virða dómara og keppinauta.
- Fáðu iðkendur til að vera með í ákvörðunum sem tengjast þeim og kenndu þeim að bera ábyrgð á eigin hegðun og framförum í íþróttinni.
- *Settu ávallt á oddinn heilsu og heilbrigði iðkenda þinna og varastu að setja þá í aðstöðu sem ógnað gæti heilbrigði þeirra.
- Sýndu athygli og umhyggju þeim iðkendum sem orðið hafa fyrir meiðslum.
- Leitaðu samstarfs við aðra þjálfara og sérfræðinga þegar þess þarf.
- Viðurkenndu rétt iðkandans til þess að leita ráða frá öðrum þjálfurum.
- *Samþykktu aldrei ógnandi, ofbeldisfulla hegðun eða áreiti þar með talið kynbundið og kynferðislegt og beittu þér gegn því.
- Haltu á lofti heiðarleika (Fair Play) innan íþróttarinnar.
- Taktu aldrei að þér akstur iðkenda, nema með leyfi foreldra/forsjáraðila.
- *Sinntu iðkendum á æfingum en þess utan skaltu halda þig í faglegri fjarlægð. Forðastu samskipti gegnum síma og netið nema til boðunar æfinga og upplýsingagjafar. Náið líkamlegt samband við iðkanda er ekki leyfilegt. Komdu þér aldrei í þá aðstöðu að þú sért einn með iðkanda að nauðsynjalausu.
- Vertu meðvitaður um hlutverk þitt sem fyrirmynd, bæði utan vallar og innan.
- Beittu þér í forvörnum gegn notkun ólöglegra lyfja, vímuefna, áfengis og alls tóbaks.
- *Öll neysla tóbaks, rafrettna, áfengis eða annarra vímuefna er óheimil í öllu íþróttastarfi.
- Notfærðu þér aldrei aðstöðu þína sem þjálfari til að uppfylla eigin áhuga á kostnað iðkandans.
- Hafðu ávallt í huga að þú ert að byggja upp fólk, bæði líkamlega og andlega.
- *Upplýstu foreldra um grun um stríðni og/eða áreitni.
*Brot á sérmerktum siðareglum eru álitin agabrot innan félagsins og viðurlög við þeim í samræmi við viðbragðsáætlun Umf. Hvatar.
Þú sem foreldri eða forráðamaður:
Hafðu ávallt hugfast að:
- Barnið þitt er í íþróttum vegna eigin ánægju en ekki til að gleðja þig.
- Hvettu barnið þitt til að fara eftir og virða reglur íþróttanna og að leysa deilur án fjandskapar eða ofbeldis.
- Styddu og hvettu öll börn og ungmenni – ekki bara þín eigin.
- Vertu jákvæður, bæði þegar vel gengur og þegar illa gengur.
- Berðu virðingu fyrir störfum þjálfara, ekki reyna að hafa áhrif á störf hans á meðan á þjálfun, leik eða keppni stendur.
- Líttu á dómarann sem leiðbeinanda barna, ekki gagnrýna ákvarðanir hans fyrir framan iðkendur.
- Mettu þátttöku sjálfboðaliða hjá félaginu, því án þeirra hefði barn þitt ekki möguleika á að stunda æfingar og keppni með sínu félagi.
- Upplýstu félag/þjálfara/starfsmann um grun um stríðni og/eða áreitni.
- Virtu rétt hvers barns, óháð s.s. kyni, kynþætti, trúarbrögðum og kynhneigð.
Stuðningsmaður:
- Komdu fram við alla félagsmenn sem jafningja, og af virðingu.
- Mundu að mikilvægast er að hvetja þitt lið áfram og hrósa þegar vel er gert. Stuðningsmenn eiga að hvetja og hrósa.
- Forðastu niðrandi ummæli í garð andstæðinga og samherja, jafnt stuðningsmanna sem og leikmanna og þjálfara.
- Forðastu neikvæða hegðun á kappleikjum, svo sem ölvun og ólæti. Mundu að þú ert mikilvæg fyrirmynd félagsmanna og slæm hegðun þín getur skaðað ímynd félagsins alls.
- Berðu virðingu fyrir störfum dómara og þjálfara liðsins.
- Hlutverk stuðningsmanna er félaginu mjög mikilvægt og því ber stuðningsmanni að standa ávallt vörð um gildi félagsins jafnt utan vallar sem innan.
Þú sem stjórnarmaður eða starfsmaður:
- Stattu vörð um anda og gildi félagsins og sjáðu um að hvort tveggja lifi áfram meðal félagsmanna.
- Komdu fram við alla félagsmenn sem jafningja og af virðingu.
- Virtu lýðræðisreglur og gagnsæi við ákvarðanatöku og stjórnaðu samkvæmt reglum um ábyrga fjármálastjórn
- Haltu félagsmönnum vel upplýstum og gerðu félagsmenn að þátttakendum í ákvarðanatöku eins og hægt er.
- Vertu ávallt til fyrirmyndar varðandi hegðun og framkomu, bæði innan félags og utan.
- Stuðlaðu að því að formlegum og siðferðislegum reglum og venjum sé fylgt.
- Notfærðu aldrei stöðu þína hjá félaginu til eigin framdráttar á kostnað félagsins.
Samþykkt af stjórn Umf. Hvatar á aðalfundi félagsins þann 14. mars 2022.